Skýrsla formanns fyrir 2008 Prenta út
Skrifað af Skarphéðinn Ásbjörnsson   
Sunnudagur, 29 Mars 2009 02:00

 

Akureyri 19. mars 2009

 

 

EFSA Íslandi

Aðalfundur fyrir árið 2008

Skýrsla formanns

 

 

 

 

Á árinu 2008 voru haldin þrjú sjóstangamót á vegum EFSA Íslandi. Fyrsta mótið, Íslandsmeistaramót EFSA var haldið frá Grindavík dagana 26. - 28. júní. Mótið tókst ágætlega og voru sett tvö íslandsmet, Langa 24,78 kg og Keila 12.38 kg. Íslandsmeistarar EFSA 2008 urðu: í kvennaflokki Sigríður Rögnvaldsdóttir og í karlaflokki Kristbjörn Rafnsson.

Annað mótið var strandveiðimót og var haldið frá Skarðsvík á Snæfellsnesi. Óhætt er að segja að þetta fyrsta strandveiðimót EFSA hafi heppnast afar vel, veður var með ágætum og aflabrögð góð. Á óvart kom að mikið veiddist af Flundru, sem er nýbúi við strendur landsins. Strandveiðimeistari EFSA Ísland 2008 varð Steve Mason. Eitt Íslandsmet í strandveiði var sett, Flundra sem vóg 0,502 kg.

Eins dags tegundamót var haldið frá Kópavogi þann 30. ágúst. Sigurvegarar á því móti voru Íslandsmeistararnir sjálfir: Í kvennaflokki, Sigríður Rögnvaldsdóttir og í karlaflokki, Kristbjörn Rafnsson.

 

Félagar EFSA Ísland voru duglegir að sækja mót erlendis á árinu 2008 og fór hópur keppenda héðan til Östende í Belgíu í maí. Þar tóku þeir þátt í Belgíumeistaramóti og Evrópumóti  í tegundaveiði, (EFSA species 2008). Varð Sigríður Kjartansdóttir Belgíumeistari kvenna og Evrópumeistari kvenna  2008. Jökull Skarphéðinsson varð einnig evrópumeistari unglinga í tegundaveiði annað árið í röð.

Þrír félagar EFSA Íslands fóru til Írlands til að taka þátt í Evrópumeistaramóti “Boat and Line Class Championships 2008”. Voru ein gullverðlaun með í farteskinu en undirritaður lenti í fyrsta sæti í blandaðri fjögurra manna sveit. Sigurlín Stefánsdóttir veiddi stærsta fisk mótsins, Conger ál sem vó rúm 34 pund.

 

Starf stjórnar EFSA Íslands á árinu 2008 snerist þó að mestu leiti um undirbúning evrópumótsins sem halda á frá Dalvík á árinu 2010. á vordögum fóru formaður og ritari félagsins til Gatwick í Englandi til þess að sitja fund framkvæmdastjórnar EFSA og til þess að gera grein fyrir framvindu undirbúningsstarfsins. Var almenn ánægja meðal fundarmanna um áætlanir og skipulagningu mótsins.

Formaður og stjórnin fundaði í nokkur skipti á árinu með aðilum frá sveitarfélaginu og kontaktaðilum þess á Dalvík og eru flest mál í góðum farvegi hvað mótið varðar. Bátamál eru að öllum líkindum alveg leyst og gistimál sömuleiðis. Eftir er að semja við veitingamann um Gala Dinner og fá húsnæði undir lokahófið. Óvíst er hvort íþróttahúsið á Dalvík verður tilbúið að ári liðnu.

Veiðireglur er búið að semja og stigagjöf og er það í fínpússningu hjá formanni og höfuðstöðvum EFSA. Eftir er að smíða forrit til útreikninga.

Því miður tókst ekki að afla auglýsinga í tíma í bæklinginn sem gefa á út fyrir mótið og ætlunin var að dreifa á vorfundinum í Gatwick en honum verður þess í stað dreift á aðalfundinum í Orkneyjum í ágúst n.k.

 

Ljóst er að mikil vinna er framundan í undirbúningi mótsins 2010 og er sú vinna í fullum gangi. Eftir því sem nær dregur eykst það starf sem inna þarf af hendi og er mikil þörf á því að þeir félagar sem sjá sér fært að leggja hönd á plóginn gefi kost á sér í þau störf. Óraunhæft er að ætla stjórninni einni og þeim fáu öðrum sem tilnefndir hafa verið að sinna öllum þeim verkum sem upp koma og biðla ég því til allra félaga að láta sitt af mörkum renna í undirbúningsstarfinu og taka vel óskum um vinnuframlag vegna þess.

 

 

Með góðum veiðikveðjum.

 

Skarphéðinn Ásbjörnsson

Formaður

 

Síðast uppfært: Föstudagur, 03 Apríl 2009 19:33