Skýrsla stjórnar fyrir starfsárið 2010 Prenta út
Skrifað af Skarphéðinn Ásbjörnsson   
Mánudagur, 21 Mars 2011 17:04

EFSA Íslandi

Skýrsla stjórnar fyrir starfsárið 2010

 

 

Starf Efsa Íslandi byrjaði af krafti strax í ársbyrjun 2010 enda okkar fyrsta Evrópumót í Báta og Línukeppni fram undan. Undirbúningsnefndin hafði verið að störfum þá í nærri þrjú ár og óðum styttist í stóru stundina. Við höfðum búist við allt að 200 keppendum á mótið en erfiðleikar í efnahagsumhverfinu ekki aðeins hér á Íslandi heldur líka í löndunum í kring um okkur tók sinn toll. Þegar að skráningu lauk um mánaðamótin janúar - febrúar var ljóst að keppendafjöldi yrði um 140. Það var þó gríðar mikil vinna í að undirbúa komu keppenda til Dalvíkur,  gistimál, æfingabátar, skipulagning ferða og atburða ásamt óteljandi öðrum atriðum sem sinna þurfti. Þegar nær dró bætti ekki úr skák þegar eldgos hófst í Eyjafjallajökli og truflaði flugsamgöngur um alla Evrópu. Við fengum alvarlegar spurningar í lok mars frá mörgum deildum um hvort ekki væri ráðlegt að aflýsa mótinu. Við stóðum því frammi fyrir gríðarlega erfiðri ákvörðun. Eftir gaumgæfilega skoðun mátum við stöðuna þannig að þegar á gosið liði myndi öskufall minnka vegna þess að vatn og ís í gígnum kláraðist. Við sendum því út yfirlýsingu um miðjan apríl að mótinu yrði ekki aflýst. Það reyndist rétt ákvörðun og lentu gestir okkar ekki í teljandi erfiðleikum á ferðum sínum að og frá landinu.

 

Mótið sjálft tókst svo í alla staði vel ef frá er talinn misskilningur við útreikning Léttlínukeppninnar sem ullu því að birt voru röng úrslit í henni í kvennaflokki og flokki öldunga kvöldið fyrir verðlaunaafhendinguna. Þáttakendur í mótinu lýstu mjög margir yfir ánægju sinni með framkvæmd mótsins og þeirri miklu veiði sem í mótinu var þrátt fyrir að ekki hafi verið mikil þorskveiði. Fyrir utan undirbúningsnefndina lögðu margir félagar okkar hönd á plóginn við framkvæmd mótsins og unnu ómetanlegt starf. Einnig lögðu fjölmargir utanaðkomandi aðilar, fyrirtæki og ekki síst bæjarfélagið okkur lið við mótshaldið og kunnum við öllum þessum aðilum bestu þakkir fyrir.  Góð afkoma var í mótinu sem gerir okkur kleift að styðja við bakið á meðlimum okkar í næstu framtíð.

 

Innanfélagsmótið okkar var haldið þann 18. september frá Ólafsvík og tókst í alla staði vel. Alls veiddust 8 tegundir fiska og veiddust 352 kíló af þorski auk annarra tegunda þótt keppendur væru einungis 9. Mótið gilti einnig sem Íslandsmeistaramót og urðu Íslandsmeistarar þau Helgi Bergsson og Sigurlín Stefánsdóttir.

 

Vegna veðurs varð að fresta strandveiðimótinu okkar fram eftir hausti og fór svo að það var að lokum haldið þann 22. Janúar. Ekki var mikil veiði, aðeins einn fiskur kom á land og var veiðimaðurinn Helgi Bergsson. Helgi varð því einnig strandveiðimeistari EFSA Íslandi 2010.

 

Þátttaka í mótum erlendis var með minna móti í ár aðallega vegna þess að aðalmót EFSA var haldið hér á Dalvík. Þó sóttu Þórir Sveinsson og Helgi Bergsson mót erlendis, Þórir tók þátt í tegundamóti í Albufuera í Portúgal í september og Helgi tók þátt í strandveiðimóti í Phwelly í Whales í nóvember.

 

Nú er liðið viðburðarríkasta ár í sögu EFSA Íslandi síðan það var endurreist árið 1998 og það er ljóst eftir tvö Evrópumót í Sjóstangaveiði að við EFSA Íslandi þótt fámenn séum, erum í stakk búin til þess að takast á við krefjandi verkefni í framtíðinni og getum verið stolt af því.

 

Fyrir hönd stjórnar,

Skarphéðinn Ásbjörnsson

Formaður